HÆNA 2011 - sigurvegarar
Ungt fólk úr æskulýðsfélaginu Glerbroti var meðal þátttakenda á æskulýðsmóti sem var haldið í
Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði, á vegum Æ.S.K.A., Æskulýðssambands kirkjunnar á Austurlandi og ÆSKEY,
Æskulýðssambands Eyjafjarðarprófastsdæmis. Um 90 unglingar á aldrinum 13 -16 ára mættu og komu þau af svæðinu frá Akureyri
til Breiðdalsvíkur ásamt rúmlega 20 leiðtogum, prestum og djáknum.
Samhliða mótinu var hin árlega hæfileikakeppni HÆNA haldin, en sú keppni hófst sem samstarfsverkefni milli Akureyrarkirkju og Glerárkirkju fyrir
fimm árum (
sjá frétt á vef prófastsdæmisins).
Æskulýðsfélagið Glerbrot átti sinn fulltrúa í keppninni. Stefanía Tara Þrastardóttir söng einsöng og kom heim einum
verðlaunapening ríkari - og sá var ekki af verri endanum því hún hlaut fyrsta sætið og þar með gullið!
Auk fyrrnefndar keppni var margt til gamans gert á mótinu, meðal annars unnið í smiðjum þar sem þátttakendur gátu látið
ljós sitt skína með skapandi tónlist, leiklist og listsköpun. Einnnig var boðið upp skyndihjálparhóp, leikjahóp og
fjölmiðlahóp, sem bjó til fréttablað og leituðu leiða til að ná eyrum og augum fjölmiðla,
Um 100 unglingar á aldrinum 13 til 16 ára og leiðtogar af Norður- og Austurlandi tóku þátt í mótinu sem haldið var í
Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði. Þema mótsins var “Með sama hugarfari og Kristur” og vísar til þess að
við erum öll ólík, en eitt. Höfum margbreytilega hæfileika, sem við eigum að nýta hvert fyrir annað og samfélag okkar. Í
þemastund á laugardeginum var fræðsla um mannréttindi, hver við erum, hvað við eigum sameiginlegt og mikilvægi þess að hugsa til þeirra
sem njóta ekki mannréttinda.
Á laugardagskvöldinu fór svo fram fyrrnefnd Hæfileikakeppni NorðAusturlands sem hefur þá skemmtilegu skammstöfun HÆNA. Keppnin fór að
þessu sinni fram í Egilsstaðaskóla og keppt var í þremur flokkum. Í frjálsum flokki sigraði Matthías Þór Sverrisson
frá Reyðarfirði, í flokki söngs og tónlistar sigraði hópur úr æskulýðsfélaginu Bíbí á
Fljótsdalshéraði og í flokki dans og líkamstjáningar sigraði danshópur frá æskulýðsfélagi Vopnafjarðarkirkju.
Að keppninni lokinni var svo haldið stórt sundlaugarpartý í sundlauginni á Egilsstöðum.
Mótinu lauk með fjölmennri æskulýðsguðsþjónustu í Kirkjubæjarkirkju, elstu kirkju Fljótsdalshéraðs, á
sunnudeginum. Þar tóku unglingarnir virkan þátt og sýndu hluta af afrakstri hópavinnu helgarinnar. Tónlistarhópur, undir stjórn Hjalta
Jóns Sverrissonar tónlistarmanns, flutti gamlan sálm í nýstárlegri útgáfu með bæði hefðbundnum og óhefðbundnum
hljóðfærum. Leikhópur, undir stjórn Laufeyjar Brár Jónsdóttur leikara, flutti frumsaminn leikþátt sem unninn var út frá
þema æskulýðsmótsins. Unglingar leiddu bæn og lásu ritningarlestur, vígslubiskup Hólaumdæmis, sr. Jón A. Baldvinsson,
predikaði í guðsþjónustunni en sr. Jóhanna I. Sigmarsdóttir sóknarprestur og sr. Hildur Eir Bolladóttir þjónuðu fyrir
altari.
Það eru Æskulýðssamband kirkjunnar á Austurlandi og Æskulýðssamband Eyjafjarðarprófastdæmis sem standa fyrir mótshaldinu.
Æskulýðssjóður styrkti fræðslu á samverunni en aðrir styrktaraðilar mótsins voru: Fljótsdalshérað, Flugfélag
Íslands, Glerárkirkja, Múlaprófastsdæmi og Subway.