Unga fólkið sem er í framvarðarsveitinni í sunnudagaskólastarfinu í Glerárkirkju sótti í dag, sunnudaginn 23. september, námskeið þar sem Magnea Sverrisdóttir djákni leiðbeindi þeim um ýmsa þætti er snúa að sunnudagaskólastarfinu. Og þar er í mörg horn að líta: Hvernig tökum við á móti krökkunum, hvernig tölum við, hvaða framkomu veljum við, hvað látum við brúðurnar gera og þá hvernig, og svona mætti lengi telja. Námskeiðið er hluti af stærri námskeiðaröð sem Glerárkirkja stendur fyrir að vanda á haustin. Dæmi um önnur námskeið má nefna eldvarnarnámskeið og skyndihjálparnámskeið.
Boðið er upp á sunnudagaskóla í Glerárkirkju í vetur flesta sunnudaga, en þá sunnudaga sem er fjölskylduguðsþjónusta er boðið upp á stutta sögustund fyrir yngstu börnin en annars er öllum boðið að taka þátt í barnvænni dagskránni í kirkjunni, en þess má geta að eitt af því sem aðskilur fjölskylduguðsþjónusturnar frá almennum messum, er að ekki er gengið til altaris og söngvarnir gjarnan í léttari kantinum, fluttir af barna- og æskulýðskórum.