Unglingastarfið hefur gengið vel í haust en að þessu sinni er Glerárkirkja í nánu samstarfi við KFUM og KFUK á Akureyri og ber starfið heitið UD-Glerá. 20, 30 og allt upp í 50 krakkar hafa verið að mæta á vikulega fundi unglingadeildarinnar sem haldnir eru í félagsheimili KFUM og KFUK í Sunnuhlíð á Akureyri. Úr þeim hópi fóru 20 krakkar í gistiferð á Hólavatn föstudagskvöldið 23. nóvember. Þrátt fyrir vetrarfærð og vetrarveður var það hin besta upplifun þar sem að ævintýraleikur úti í snjónum á föstudagskvöldinu og ganga á ísilögðu vatninu á laugardeginum áttu sinn þátt í að gera ferðina eftirminnilega.
Síðasti fundur í unglingadeildinni verður fimmtudagskvöldið 29. nóvember kl. 20:00. Þá verður um svokallað Palla- og Pálínuboð að ræða. Í slíkt boð mætir hver sá sem vill með smávegis kræsingar í farteskinu sem fara á sameiginlegt hlaðborð. Svo njóta allir jólalegrar samverustundar um leið og lagt verður á ráðin með dagskrá vorannar.
Umsjón með unglingastarfinu hafa Jóhann H. Þorsteinsson (KFUM) og Pétur Björgvin Þorsteinsson (Glerárkirkja)