Kirkjuþing unga fólksins skorar á stjórnvöld að leiðrétta þann niðurskurð sem átt hefur sér stað á sóknargjöldum til kirkjunnar þar sem grunnstoðir í starfsemi safnaða þjóðkirkjunnar séu að hruni komnar vegna fjárhagsvanda.[1] Sem dæmi bendir kirkjuþing unga fólksins á að æskulýðsfulltrúum innan kirkjunnar hefur fækkað verulega og á höfuðborgarsvæðinu einu hefur þeim fækkað úr tíu fagmenntuðum aðilum í fullu starfi og þremur í hluta starfi árið 2006 í einn í fullu starfi og fimm í hlutastarfi árið 2012. Er þetta gífurlega slæm þróun þegar kemur að faglega menntuðum einstaklingum í æskulýðsstarfi kirkjunnar.
Kirkjuþing unga fólksins fór fram í Grensáskirkju í dag. Þingið sóttu fulltrúar unga fólksins úr söfnuðum þjóðkirkjunnar alls staðar af landinu, þeirra á meðal Guðrún Ösp Erlingsdóttir (mynd) sem tekur virkan þátt í æskulýðsstarfi Glerárkirkju. Þingið samþykkti meðal annars ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld að leiðrétta niðurskurð á sóknargjöldum og skorað á kirkjuna að standa vörð um æskulýðsstarf sem hafi orðið illa fyrir niðurskurðarhnífnum. Ályktunin í heild sinni er svohljóðandi:
Kirkjuþing unga fólksins skorar á yfirstjórn kirkjunnar að berjast gegn frekari niðurskurði og leita allra leiða til að leiðrétta þann niðurskurð sem hefur átt sér stað frá árinu 2009.
Kirkjuþing unga fólksins skorar á söfnuði kirkjunnar að tryggja að niðurskurður á sóknargjöldum bitni ekki á æskulýðsstarfi kirkjunnar enda er þar um að ræða eitt mikilvægasta starf kirkjunnar. Æskulýðsstarf kirkjunnar hefur fyrir löngu sannað forvarnar- og uppeldisgildi sitt. Mikilvægt er að sóknir kirkjunnar haldi áfram að bjóða upp á ókeypis æskulýðsstarf enda fá önnur slík æskulýðsstörf í boði.
Um kirkjuþing unga fólksins
Kirkjuþing unga fólksins kemur saman árlega. Hlutverk þess er að ræða stöðu og hlutverk ungs fólks í þjóðkirkjunni og í samfélagi kirkna um heim allan. Þar eiga sæti fulltrúar prófastsdæma Þjóðkirkjunnar og fulltrúar frá KFUM og KFUK með málfrelsi, tillögurétti og atkvæðisrétti. Fulltrúarnir skulu vera á aldrinum 14 til 30 ára og skráðir í þjóðkirkjuna.
Ályktanir þingsins verða kynntar á Kirkjuþingi sem hefst á laugardag. Kirkjuþing unga fólksins hefur áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt á Kirkjuþingi.
Myndir af þinginu má sjá á myndasvæði kirkjunnar.