Fréttir

Vidtal vid Örnu Ýrr í Vikudegi

Þetta er stórkostlegt tækifæri til að koma aftur heim og það hlakka allir í fjölskyldunni til að flytja norður," segir sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir  í vidtali á vikudagur.is 

Hugvekja á 17. júní

Í hugvekju dagsins á trú.is skrifar Pétur Björgvin djákni m.a.: ,,Það er þörf á fólki eins og þér í dag! Fólki sem mætir á hátíð sem þessa til að samgleðjast með öðrum Íslendingum yfir því sem við eigum og höfum. Nýtt Ísland byggir á þessum kærleika til náungans og landsins og verður ekki byggt upp nema að við lærum að koma í veg fyrir að valtað sé yfir landið okkar og fólkið sem í því býr." Smellið hér til að lesa hugvekju á trú.is.

Þakkir til Helga Hróbjartssonar

Starfsfólk Glerárkirkju ásamt sóknarpresti sr. Gunnlaugi Garðarssyni héldu í dag lítið hóf til heiðurs sr. Helga Hróbjartssyni sem nú kveður söfnuðinn eftir að hafa sinnt afleysingarstörfum prests í um hálft ár í Glerárprestakalli. Voru sr. Helga þökkuð góð störf og allt framlag hans, kirkju og kristni til blessunar í söfnuðinum. Helgi mun fljótlega halda til Eþíópíu þar sem hann mun sinna leiðtogafræðslu fyrir fleiri söfnuði í suður Eþíópíu. En áður en hann fer til starfa þar mun hann taka virkan þátt í kristniboðsmótinu á Löngumýri 16. til 18. júlí. Allir eru hjartanlega velkomnir á mótið! Skráning fer fram á Löngumýri í síma 453 8116. Frekari upplýsingar fást á skrifstofu Kristniboðssambandsins, Háaleitisbraut 68, s. 533 4900, netfang: sik@sik.is.

Arna Ýrr Sigurðardóttir boðin velkomin til starfa

Arna Ýrr Sigurðardóttir er nýr prestur í Glerárprestakalli. Innsetningarmessa hennar verður sunnudagskvöldið 20. júní kl. 20:30 en þar mun sr. Hannes Örn Blandon prófastur setja hana inn í embætti. Vinir og velunnarar kirkjunnar eru hvattir til að mæta. Sr. Arna Ýrr mun predika og þjóna ásamt sr. Gunnlaugi Garðarssyni sóknarpresti. Kór Glerárkirkju mun leiða sönginn í helgihaldinu undir stjórn organista kirkjunnar, Valmars Väljaots. Að messu lokinni er boðið upp á kaffi í safnaðarsal. Sr. Arna Ýrr er fædd og uppalin á Akureyri, gekk í Oddeyrarskóla og lauk stúdentsprófi frá MA. Hún vígðist sem prestur til Raufarhafnar 20. ágúst 2000 og gegndi því embætti í sex ár, eða allt þar til það var lagt niður árið 2006. Þá tók hún við starfi sem prestur í tveimur sóknum í Reykjavík, í Langholtssókn og Bústaðasókn, þar sem hún starfaði við hlið sóknarprestanna. Hún er gift Elvari Árna Lund, sjávarútvegsfræðingi og eiga þau tvo syni, Níels Árna, 5 ára og Benedikt Árna 2 ára. Fyrir á sr. Arna, Loga sem er 22 ára. Aðspurð segist sr. Arna Ýrr hlakka mikið til að koma til starfa í söfnuðinum og ekki skemmir fyrir tækifærið að fá að starfa sem prestur í sínum heimabæ.