17.02.2013
Í prédikun dagsins minnti sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir kirkjugesti á að það er mikilvægt að leggja orð Jesú við Símon Pétur á minnið: ,,Ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki og styrk þú bræður þína og systur“ því þau minntu okkur á að þrátt fyrir að við manneskjurnar bregðumst, gerum hluti sem við sjáum eftir, jafnvel hluti sem við hefðum haldið um fyrirfram að við myndum aldrei gera, þá elskar Jesús okkur og honum er umhugað um okkur. Hægt er að horfa á prédikun dagsins hér á vef Glerárkirkju.
14.02.2013
Hlutverk hinnar biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju er miðpunktur þeirrar fræðslu og umræðu sem nú fer fram á miðvikudagskvöldum í Glerárkirkju á Akureyri. Miðvikudaginn sjötta febrúar flutti sr. Gísli Gunnarsson sóknarprestur og Kirkjuráðsmaður erindi sem nefndist Köllun kirkjunnar á tímum skeytingarleysis og andstæðna. Upptaka af erindinu er nú aðgengileg í sjónvarpi kirkjunnar.
11.02.2013
Vegna öskudagsins og frídaga í skólum í hverfinu verður engin fermingarfræðsla í Glerárkirkju þriðjudaginn 12. febrúar og miðvikudaginn 13. febrúar. Krakkarnir eru samt hvött til að muna eftir heimaverkefnunum og vonast er til að þau komi vel undirbúin í næsta fermingartíma, en kennsla hefst aftur samkvæmt stundarskrá þriðjudaginn 19. febrúar og miðvikudaginn 20. febrúar. Nánari upplýsingar um fermingarstörfin gefa prestar kirkjunnar, þau sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir (arna[hjá]glerarkirkja.is) og sr. Gunnlaugur Garðarsson (gunnlaugur[hjá]glerarkirkja.is).
10.02.2013
Sönggleðin er í fyrirrúmi þegar þær Marína Ósk Þórólfsdóttir og Rósa Ingibjörg Tómasdóttir stjórna æfingum hjá Barnakór Glerárkirkju og Æskulýðskór Glerárkirkju. Alltaf er velkomið að bætast í hópinn í þetta ókeypis tónlistarstarf sem Glerárkirkja bíður upp á. Æfingar fyrir barnakórinn eru á samkvæmt útsendri dagskrá yfirleitt á miðvikudögum kl. 15:30 til 16:30 en æskulýðskórinn æfir á sömu dögum kl. 16:30. Nánari upplýsingar - meðal annars um það hvenær næsta æfing sé - gefur Marína Ósk í síma 847 7910.
07.02.2013
Á síðasta ári kom út ritið Þjónusta í síbreytilegu samhengi, íslensk þýðing á Diakonia in Context sem kom út hjá Lúterska heimssambandinu árið 2009. Markmiðið með þýðingunni er að efni um þjónustuna, díakoníuna, sé aðgengilegt fyrir allt áhugasamt fólk um kirkjulegt starf meðal samborgara okkar. Miðvikudagskvöldið 13. febrúar verður umræðukvöld í Glerárkirkju þar sem hluti þessa rits er lagður til grundvallar umræðunni. Framsögu flytur Ragnheiður Sverrisdóttir djákni og verkefnisstjóri á Biskupsstofu. Dagskráin hefst kl. 20:00, allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Um níuleytið er gert kaffihlé. Tekið er á móti frjálsum framlögum í kaffisjóð.
06.02.2013
Um nokkurt skeið hefur þjóðkirkjan staðið fyrir svonefndum vinaheimsóknum, meðal annars á Akureyri og í nágrenni. Reynt er að miðla heimsóknum til þeirra sem gjarnan vilja kynnast manneskju úr nágrenninu, en eiga sjálfir erfitt með að komast út á meðal fólks, til dæmis vegna veikinda eða fötlunar. Fimmtudaginn 14. febrúar kl. 17:00 til 20:00 verður haldið kynningarnámskeið fyrir áhugasama í Glerárkirkju. Þátttaka er ókeypis en nauðsynlegt að skrá sig á netfangið allaadda@gmail.com
03.02.2013
Þjálfun í lífsþrótti, lífslöngun, sjálfsstjórn og í því að lifa í návist Guðs er undirtitill bókarinnar Bænabandið eftir Martin Lönnebo sem Skálholtsútgáfan gaf út fyrir nokkrum árum. Karl Sigurbjörnsson þýddi bókina. Í inngangi að henni segir: ,,Að biðja er að finna þá þögn þar sem Guð býr. Þar geturðu verið með Guði, verið snortinn af Guði og sameinast Guði". Á helgistundum á fræðslukvöldum nú í febrúar og mars verður bænabandið eitt af þeim verkfærum sem að umsjónarfólk helgistundanna mun nota, en ítarleg kynning á bænabandinu verður í umsjón sr. Gunnlaugs Garðarssonar á fræðslukvöldi 27. mars. Áhugasömum er bent á að hægt er að kaupa bókina í helstu bókabúðum, Litla húsinu við Glerárgötu á Akureyri og í Glerárkirkju.
03.02.2013
Á síðasta ári kom út ritið Þjónusta í síbreytilegu samhengi, íslensk þýðing á Diakonia in Context sem kom út hjá Lúterska heimssambandinu árið 2009. Með ritinu hafa sóknarnefndir, starfsfólk kirkna, prestar, djáknar, æskulýðsfulltrúar, kirkjugestir, safnaðarmeðlimir ... fengið í hendurnar gagnlegt og gott verkfæri til umræðu um trú í verki. Ritið verður til umræðu á þremur miðvikudagskvöldum í Glerárkirkju í febrúar en fræðslukvöldin hefjast næstkomandi miðvikudagskvöld.
01.02.2013
Sunnudaginn 3. febrúar kl. 11:00 er fjölskylduguðsþjónusta í Glerárkirkju. Þar mun Marína Ósk Þórólfsdóttir stjórna Barnakór Glerárkirkju og Æskulýðskór Glerárkirkju auk þess sem að sunnudagaskólakrökkunum bíðst að taka þátt í nokkrum hreyfisöngvum. Þá munur þær Dagný og Ragnheiður sjá um brúðuleikhús dagsins og dreifa sunnudagaskólamyndum að samveru lokinni. Prestur er sr. Gunnlaugur Garðarsson. Allir hjartanlega velkomnir.