22.12.2012
Dr. Munib A. Younan, forseti Lútherska heimssambandsins og biskup evangelísku lúthersku kirjkunnar í Jórdaníu og Landinu helga, sendir jólakveðju sína frá Jerúsalem, borg dauða og upprisu Drottins. Þaðan, frá borginni sem löngum hefur verið kennd við frið, berst sem oft áður harmagrátur ófriðar og deilna, líkt og frá ófáum öðrum stöðum í veröldinni. Von jólanna, segir dr. Younan, er þó hin sama og fyrir rúmum tvöþúsund árum: að Guð sætti heiminn við sig í Kristi. Sáttargjörðin birtist í hinum hógværu aðstæðum barnsins í Bethlehem og er gjöf Guðs til okkar í dag, eins og Jesaja spámaður segir (25.4):
Því þú varst vörn lítilmagans,
vörn hins þurfandi í þrengingum hans,
skjól í skúrum, hlíf í hita.
21.12.2012
Jólasöfnun Hjálparstarf kirkjunnar er í fullum gangi. 800 milljónir manna hafa ekki aðgang að hreinu vatni. 1,5 milljón barna deyja á ári af vatnsskorti og sjúkdómum þeim tengdum. Yfirskrift söfnunarinnar er Hreint vatn gerir kraftaverk. Send er valgreiðsla að upphæð 2.500 krónur í heimabanka landsmanna. 72 greiddar valgreiðslur eða 180.000 krónur duga fyrir góðum brunni sem sem gefur hreint vatn um langa framtíð.
20.12.2012
Allt frá 2009 hefur Glerárkirkju boðið upp á sérstaka þemaviku fermingarbarna í upphafi vorannar. Þemavikunni er ætlað að gefa innsýn í kristni og safnaðarstarf á annan hátt heldur en hið reglulega fermingarstarf rúmar. Að þessu sinni fáum við í heimsókn átján manna hóp frá Ungu fólki með hlutverk sem er statt hér á landi í starfsþjálfunarverkefni sem er hluti af því biblíuskólanámi sem fólkið tekur þátt í. Um er að ræða ungt fólk á milli tvítugs og þrítugs. Til þess að gera þetta verkefni mögulegt vantar okkur aðstoð: Við leitum að fjölskyldum sem geta tekið gest(i) í gistingu og morgunverð frá mánudeginum 21. janúar til og með sunnudagsins 27. janúar (brottför síðdegis).
19.12.2012
Á visir.is má nú finna grein Péturs Björgvins djákna um tengsl skóla og kirkju. Þar segir meðal annars: ,,Heimsóknir leikskóla- og grunnskólabarna í kirkjur hafa verið nokkuð til umræðu í fjölmiðlum á þessari aðventu. Því ber að fagna. Sátt um sambúð ólíkra hefða í samfélaginu hefst með hreinskiptinni umræðu. Það á sérstaklega við ef við sem tökum til máls erum vel upplýst og sýnum hvert öðru þá virðingu að fara með rétt mál."
18.12.2012
Í morgun var nýr vefur biskups Íslands formlega opnaður á Biskupsstofu. Hann er settur upp til að almenningur eigi kost á betri innsýn í starf biskups. Þar er sagt frá störfum biskups, sýndar myndir úr kirkjustarfi um allt land og sagt frá biskupsembættinu og konunni sem nú gegnir því.
14.12.2012
Kirkjuþing kemur saman til þingfundar á morgun, laugardaginn 15. desember kl. 9. Á dagskrá eru málefni sem varða fjármál þjóðkirkjunnar. Þingið mun að þessu sinni funda í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Listi yfir þingmál, gerðir þingsins, fréttir af þinginu og upptökur af umræðum er að finna á vef þingsins, www.kirkjuthing.is. Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju situr þingið sem fulltrúi vígðra þjóna úr Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.
13.12.2012
Fjölskylduguðsþjónusta verður í Glerárkirkju á þriðja sunnudegi í aðventu, 16. desember kl. 11:00. Þar mun Marína Ósk Þórólfsdóttir ásamt aðstoðarkonu sinni Rósu Ingibjörgu Tómasdóttur stjórna söng Barnakórs Glerárkirkju og Æskulýðskórs Glerárkirkju. Sr. Gunnlaugur Garðarsson og Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni þjóna. Brúðuleikhús sunnudagaskólans verður á sínum stað. Allir velkomnir.
12.12.2012
Hilda Jana, fréttakona norðlensku sjónvarpsstöðvarinnar N4 tók Baldur Dýrfjörð sóknarnefndarmann tali í Glerárkirkju nokkrum dögum fyrir 20 ára vígsluhátíð kirkjunnar og spurði hann meðal annars út í sögu kirkjunnar. Viðtalið er nú aðgengilegt á netinu.
12.12.2012
Í pistli nýverið á trú.is mátti meðal annars lesa þessi orð undirritaðs: ,, Mín tilfinning er sú að okkur, kirkjunnar þjónum, hætti stundum til að þykja mikilvægara að nota orð hefðarinnar heldur en að efla einstaklinginn sem mætir eða mætir ekki í kirkjuna svo hann geti tjáð sig um eiginn skilning á því sem fram fer og sagt er." Það væri ánægjulegt ef þú, lesandi góður, tækir þér tíma til að lesa þennan pistil.
11.12.2012
Það á ,,að koma skýrt fram í allri boðun kirkjunnar, að sem lærisveinar Jesú Krists verðum við alltaf að taka okkur stöðu með þeim sem þurfa að þola hvers konar ofbeldi og kúgun. Það er óásættanlegt að gefa afslátt af þeirri afstöðu. Ofbeldi er synd og á hvergi að líðast, það er alveg skýrt." skrifar sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir meðal annars í grein sem birtist í dag í Fréttablaðinu í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem er nýlokið.