12.09.2012
Starfið í Barnakór Glerárkirkju fer vel af stað í haust undir stjórn Marínu Óskar Þórólfsdóttur og Rósu Ingibjargar Tómasdóttur. Þegar ljósmyndari Glerárkirkju leit inn á æfingu í dag voru rúmlega 20 börn mætt á æfingu og gleðin skein úr hverju andliti. Framundan er spennandi dagskrá og vel þess virði að vera með í þessu ókeypis tómstundarstarfi!
12.09.2012
Hjálparstarf kirkjunnar hefur um árabil deilt út skólabókum, reiknivélum, möppum og ýmsu sem krakkar þurfa í skólann eða styrkt fjölskyldur með börn í upphafi skólaárs á annan hátt. Um leið og við í Glerárkirkju bendum þeim sem þurfa á slíkum styrk að halda að það er velkomið að sækja um slíkan styrk hjá okkur, þá hvetjum við þau sem eru aflögufær til þess að gefa skólastyrk til Hjálparstarfsins.
12.09.2012
Það eru allir hjartanlega velkomnir á fyrirbænastundirnar í Glerárkirkju sem eru hvern miðvikudag klukkan tólf. Fyrirbænaefnum má koma til presta kirkjunnar á viðtalstíma á miðvikudögum milli 11:00 og 12:00 (sími 464 8800) eða með því að senda þeim tölvupóst (gunnlaugur@glerarkirkja.is / arna@glerarkirkja.is). Að lokinni fyrirbænastund í kirkjunni býðst þátttakendum að kaupa sér léttan hádegisverð í safnaðarsal.
11.09.2012
Hr. Kristján Valur Ingólfsson, Skálholtsbiskup prédikaði við setningu Alþingis í dag. Þar benti hann m.a. á að hugtakið þjóðkirkja felur ekki í sér neitt beinlínis um tengsl kirkjunnar við ríkisvaldið, heldur um tengslin við þjóðina og felur því í sér starfsáætlun. Kristján Valur minnti enn fremur á að kirkja er farvegur átrúnaðar. Þannig hafi þjóðkirkjan á sínum tíma, 1874, verið ríkiskirkja og sá farvegur átrúnaðar sem ríkið mælti helst með, en því sé öðruvísi farið í dag. Í dag tryggi ríkið þegnunum möguleika til að sameinast um þann átrúnað sem þeim sýnist. En þó ríkið hafi ekki afskipti af trúarbrögðum eða trúarástandi að öðru leyti geti kristin gildi að sjálfsögðu verið grundvallandi.
11.09.2012
Unglingastarf Glerárkirkju verður í vetur í samstarfi við KFUM og KFUK á fimmtudagskvöldum kl. 20:00 til 21:30 í félagsheimili KFUM og KFUK í Sunnuhlíð. Starfið er opið krökkum úr áttunda bekk og eldri. Umsjón með starfinu hafa Jóhann (699 4115) og Pétur Björgvin ( 864 8451).
11.09.2012
Tólf spora fundir í Glerárkirkju verða á mánudögum kl. 19:30 í vetur. Fyrsti fundur verður mánudagskvöldið 17. september. Fyrstu þrjú kvöldin eru svokölluð opin kvöld þar sem öllum gefst kostur á að kynna sér starfið. Tólf spora vinna hentar öllum þeim sem í einlægni vilja dýpka sínar tilfinningar og öðlast betri líðan og meiri lífsfyllingu.
06.09.2012
Minningarstund vegna fósturláta verður haldin í Höfðakapellu á Akureyri fimmtudaginn 13. september kl. 16.30. Minningarstundin er hugsuð til að koma til móts við þau ótalmörgu sem upplifað hafa sorg vegna fósturláts. Minningarstundin er haldin í samvinnu Sjúkrahússins á Akureyri og Útfararþjónustu kirkjugarða Akureyrar.
06.09.2012
Messa kl. 11. Sr. Gunnlaugur Garðarsson þjónar, Kór Glerárkirkju syngur. Sunnudagaskóli á sama tíma, sameiginlegt upphaf í messu. Allir velkomnir.
05.09.2012
Barnakór Glerárkirkju æfir á miðvikudögum frá hálf fjögur til hálf fimm. Hann er opinn strákum og stelpum úr öðrum til fimmta bekk. Æskulýðskór Glerárkirkju æfir einnig á miðvikudögum frá klukkan hálf fimm. Þangað eru allir strákar og stelpur úr sjötta bekk og eldri velkomin. Kórstjóri er Marína Ósk Þórólfsdóttir. Henni til aðstoðar er Rósa Ingibjörg Tómasdóttir.
05.09.2012
Fermingarfræðslan hefst í næstu viku með kynningarfundi fyrir fermingarbörn. Krakkar í Glerárskóla eiga að mæta mánudaginn 10. september kl. 17, krakkar í Giljaskóla þriðjudaginn 11. september kl. 17 og krakkar í Síðuskóla miðvikudaginn 12 september kl. 17. Mikilvægt er að skila skráningarblöðunum sem fylgdu með heimsendu bréfi á þessa kynningarfundi. Ef einhver getur ekki mætt með sínum skóla, þá er velkomið að mæta á annan hvorn hinna tveggja kynningarfundanna. Fermingarfræðslan hefst síðan skv. stundaskrá vikuna 16. - 22. sept. nk.