03.09.2012
Næstkomandi sunnudag, 9. september hefst sunnudagaskólinn í Glerárkirkju. Sameiginlegt upphaf er í messu safnaðarins en fljótlega eftir að messan er hafin fara börnin og þeir foreldrar sem það kjósa inn í safnaðarsalinn þar sem sunnudagaskólinn er staðsettur. Þar er sungið, sagðar sögur, farið í leiki eða föndrað. Allir hjartanlega velkomnir.
03.09.2012
Glerárkirkja, KFUM og KFUK og ÆSKR standa fyrir námskeiðinu "Ungt fólk, trú og lýðræði" sem fram fer í Glerárkirkju og á Hólavatni dagana 14. til 16. september næstkomandi. Námskeiðið er hugsað fyrir 18 til 25 ára ungt fólk. Unnið verður með verkefni úr Kompás - Handbók Evrópuráðsins í mannréttindafræðslu með ungu fólki, en einnig verða textar Biblíunnar um ungt fólk og áhrif þess skoðaðir. Þátttökugjaldið er aðeins 3.000 krónur. Skráning er hafin á skraning.kfum.is.
01.09.2012
Aukakirkjuþing kom saman í dag. Til þess var boðað til að ræða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um endurskoðun stjórnarskrárinnar að því er varðar ákvæði hennar um þjóðkirkjuna. Kirkjuþingið hvetur kjósendur til að segja já við þjóðkirkjuákvæðinu.
01.09.2012
Aukakirkjuþing samþykkti ályktun um skerðingu sóknargjalda í dag. Ályktunin er svohljóðandi: ,,Aukakirkjuþing, haldið 1. september 2012, lýsir yfir þungum áhyggjum af alvarlegri fjárhagsstöðu sókna landsins. Sóknir landsins hafa tekið á sig skerðingu eins og allir aðrir í þjóðfélaginu en sú skerðing hefur verið 25% umfram stofnanir innanríkisráðuneytisins. Kirkjuþing krefst tafarlausrar leiðréttingar sóknargjalda."