20.08.2012
Djáknarnir Magnea Sverrisdóttir og Pétur Björgvin Þorsteinsson eru höfundar pistils sem birtist á trú.is í dag þar sem þau kalla eftir því að Þjóðkirkjan stofni aftur embætti Æskulýðsfulltrúa Þjóðkirkjunnar, en það embætti var lagt niður um áramótin 1988/89. Í pistlinum segja þau meðal annars: ,,Þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur æskulýðsstarf kirkjunnar svo sannarlega fundið fyrir niðurskurði."
18.08.2012
,,Leyfum starfinu að blómstra á nýjan hátt" er yfirskrift haustnámskeiðs barnastarfs kirkjunnar sem haldið verður víða um land í haust, meðal annars í Glerárkirkju fimmtudagskvöldið 13. september frá 17:00 til 21:00. Námskeiðið er ætlað prestum, djáknum, æskulýðsfulltrúum, barnakórstjórum, leiðtogum og aðstoðarleiðtogum í barnstarfi kirkjunnar. Þátttaka er ókeypis. Sr. Jón Ármann Gíslason prófastur veitir nánari upplýsingar og tekur á móti skráningum á netfangið skinnast[hjá]gmail.com
17.08.2012
Krakkarnir úr Síðuskóla létu það ekki aftra sér að sólin hefði horfið á bak við ský. Þau létu ekki nægja að vera mætt í sumarbúðir við Hólavatn heldur skelltu þau sér í bókstaflegri merkingu orðsins í Hólavatn. Reyndar létu sum sér nægja að sitja í bátunum en stór hluti þeirra 17 krakka sem þáðu boð Glerárkirkju um ferð á Hólavatn óðu og syntu í vatninu. Tíminn við, á og í Hólavatni var fljótur að líða og kannski lítið sofið af því að ferðin var "of stutt" að mati krakkanna.
17.08.2012
Næsta sunnudag, 19. ágúst, verður vígsluathöfn nýrrar byggingar á Hólavatni, sumarbúðum KFUM og KFUK í Eyjafirði kl. 14:00. Að vígsluathöfninni lokinni verður árleg kaffisala Hólavatns. Þá gefst tækifæri til að kaupa kaffi og ljúffengar kaffiveitingar til styrktar starfinu á Hólavatni.
17.08.2012
Í messu næsta sunnudags verður altarisganga. En áður mun sr. Arna Ýrr tala um skrímsli og jaðarsetningu, faríseann og tollheimtumanninn.
Valmar spilar á orgelið og félagar úr Kór Glerárkirkju leiða okkur í söng. Allir velkomnir.
16.08.2012
Þessa dagana standa yfir kynningaferðir æskulýðsstarfsins á Hólavatn. Ferð númer tvö lauk í dag þegar 24 krakkar komu til baka úr vel heppnaðri ferð, en flest þeirra eru í Giljaskóla. Veðrið lék við hópinn og var gaman hve mikill áhugi krakkanna var á íþróttum og var blakvöllurinn mikið notaður. Að sjálfsögðu var líka farið í og á vatnið og tekið þátt í fjölbreyttri dagskrá. Í dag leggur svo þriðji og síðasti hópurinn að þessu sinni upp í ferð á Hólavatn kl. 16:30.
15.08.2012
Það voru 13 ánægðir unglingar sem snéru heim í hádeginu í dag að lokinni næturlangri dvöl á Hólavatni þar sem veðrið lék við hópinn. Mikið var verið á og í vatninu, brauð bakað yfir eldi á miðnætti, hlegið á kvöldvöku og sungið hástöfum. Um fyrstu ferðina af þremur var að ræða. Það er æskulýðsstarf Glerárkirkju sem stendur fyrir ferðunum og geta verðandi fermingarbörn valið að fara með í ferðina, en hún er ekki hluti af formlegri fermingarfræðslu kirkjunnar.
14.08.2012
,,Að smætta kristni í bókstafstrú og tefla henni gegn manneskjunni, vinnur gegn eðli hennar og er til skaða í samfélaginu. Auglýsingin um helgina minnir okkur á það." segja prestarnir Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir m.a. í pistli í dag í Fréttablaðinu og á trú.is. Þar benda þau á að: ,,Kristin manneskja byggir ekki trú sína á bókstöfum og lögmáli, heldur fyrirheitinu um frelsi og ást Guðs, eins og það birtist í Jesú frá Nasaret."
14.08.2012
Nýung í starfi Glerárkirkju þetta haustið er að verðandi fermingarbörnum er boðið í gistiferð á Hólavatn. Þar dvelur hver hópur frá síðdegi fyrra daginn til hádegis næsta dag við leik og hópefli. Með ferðinni vill Glerárkirkja kynna það æskulýðsstarf sem fram fer á vegum kirkjunnar og samstarfsaðila hennar KFUM og KFUK. Nú þegar formlegri skráningu er lokið hafa tæplega 50% árgangsins skráð sig í ferðirnar, en þær eru valkostur til viðbótar við fermingarfræðsluna. Fyrsti hópurinn fer af stað í dag kl. 16:30 frá Glerárkirkju. Ef einhver hefur óvart gleymt að skrá sig er sá hinn sami / sú hin sama beðin að hringja í 864 8451.
12.08.2012
Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, vígði sr. Solveigu Láru Guðmundsdóttur til embættis vígslubiskups á Hólum við hátíðlega athöfn í Hóladómkirkju í dag. Í prédikun sinni minnti Solveig Lára áheyrendur á að Jesús grætur yfir ranglætinu í heiminum og sagði meðal annars: ,,Jesús grætur líka yfir okkur hér á Íslandi. Hann grætur yfir hælisleitendum sem ekki fá hæli hér á landi, þó við höfum hér nóg pláss og fullt af hjartarými, hælisleitendum sem eru bara fólk eins og við og börnin okkar. Jesús grætur yfir fórnarlömbum heimilisofbeldis á Íslandi og öllum þeim sem líður illa vegna óuppgerðra til finninga, sorgar, reiði og gremju."