Fréttir

Fróðlegt sunnudagaskólanámskeið

Biskupsstofa stóð fyrir námskeiði um sunnudagaskólastarf fimmtudaginn 13. september í Glerárkirkju. Þar var farið yfir það efni sem sunnudagaskólaleiðbeinendum stendur til boða að nota, kennd ný gospellög og ýmislegt fleira rætt varðandi barnastarf kirkjunnar. Námskeiðið sóttu prestar, starfsfólk og sjálfboðaliðar úr kirkjum á Norðurlandi. Hér á vef Glerárkirkju er hægt að skoða nokkrar myndir.

Fermingarbörn og foreldrar boðuð til messu á sunnudaginn, 16. september

Næsta sunnudag verður messa kl. 11. Það er fyrsta messa vetrarins með þátttöku fermingarbarna og foreldra þeirra, en hluti af fermingarfræðslunni er að mæta í messur á sunnudögum. Ungt fólk úr æskulýðsstarfinu tekur virkan þátt í messunni. Við bjóðum öll fermingarbörn velkomin með foreldrum sínum og bjóðum upp á létt spjall fyrir foreldra í safnaðarsal að messu lokinni. Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta.

Söngur, sögur og gleði í sunnudagaskólanum

Sunnudagaskólastarfið er hafið í Glerárkirkju og hvetjum við foreldra og forráðafólk, afa og ömmur til þess að mæta með börnin sín í sunnudagaskólann. Í vetur munum við hafa þann háttinn á að í forkirkjunni er komið fyrir borði með litum og litlu leikhorni fyrir þau sem það kjósa á meðan þau bíða eftir að sunnudagaskólinn hefjist. Helgihaldið hvern sunnudag hefst í kirkjunni sjálfri en eftir 10 til 12 mínútur er ganga þau sem það kjósa yfir í safnaðarsalinn og taka þátt í sunnudagaskólanum. Krakkarnir fá afhenta litla bók sem þau geta nýtt til að safna biblíumyndunum í. Aftan á bókina er gefinn stimpill fyrir hvert skipti sem mætt er í sunnudagaskólann.

Blómlegur barnakór

Starfið í Barnakór Glerárkirkju fer vel af stað í haust undir stjórn Marínu Óskar Þórólfsdóttur og Rósu Ingibjargar Tómasdóttur. Þegar ljósmyndari Glerárkirkju leit inn á æfingu í dag voru rúmlega 20 börn mætt á æfingu og gleðin skein úr hverju andliti. Framundan er spennandi dagskrá og vel þess virði að vera með í þessu ókeypis tómstundarstarfi!

Gefðu skólastyrk

Hjálparstarf kirkjunnar hefur um árabil deilt út skólabókum, reiknivélum, möppum og ýmsu sem krakkar þurfa í skólann eða styrkt fjölskyldur með börn í upphafi skólaárs á annan hátt. Um leið og við í Glerárkirkju bendum þeim sem þurfa á slíkum styrk að halda að það er velkomið að sækja um slíkan styrk hjá okkur, þá hvetjum við þau sem eru aflögufær til þess að gefa skólastyrk til Hjálparstarfsins.

Hádegissamverur á miðvikudögum

Það eru allir hjartanlega velkomnir á fyrirbænastundirnar í Glerárkirkju sem eru hvern miðvikudag klukkan tólf. Fyrirbænaefnum má koma til presta kirkjunnar á viðtalstíma á miðvikudögum milli 11:00 og 12:00 (sími 464 8800) eða með því að senda þeim tölvupóst (gunnlaugur@glerarkirkja.is / arna@glerarkirkja.is). Að lokinni fyrirbænastund í kirkjunni býðst þátttakendum að kaupa sér léttan hádegisverð í safnaðarsal.

Tvö hús

Hr. Kristján Valur Ingólfsson, Skálholtsbiskup prédikaði við setningu Alþingis í dag. Þar benti hann m.a. á að hugtakið þjóðkirkja felur ekki í sér neitt beinlínis um tengsl kirkjunnar við ríkisvaldið, heldur um tengslin við þjóðina og felur því í sér starfsáætlun. Kristján Valur minnti enn fremur á að kirkja er farvegur átrúnaðar. Þannig hafi þjóðkirkjan á sínum tíma, 1874, verið ríkiskirkja og sá farvegur átrúnaðar sem ríkið mælti helst með, en því sé öðruvísi farið í dag. Í dag tryggi ríkið þegnunum möguleika til að sameinast um þann átrúnað sem þeim sýnist. En þó ríkið hafi ekki afskipti af trúarbrögðum eða trúarástandi að öðru leyti geti kristin gildi að sjálfsögðu verið grundvallandi.

Unglingastarf á fimmtudagskvöldum í samstarfi við KFUM og KFUK

Unglingastarf Glerárkirkju verður í vetur í samstarfi við KFUM og KFUK á fimmtudagskvöldum kl. 20:00 til 21:30 í félagsheimili KFUM og KFUK í Sunnuhlíð. Starfið er opið krökkum úr áttunda bekk og eldri. Umsjón með starfinu hafa Jóhann (699 4115) og Pétur Björgvin ( 864 8451).

Tólf spora starf - mannrækt öllum opin

Tólf spora fundir í Glerárkirkju verða á mánudögum kl. 19:30 í vetur. Fyrsti fundur verður mánudagskvöldið 17. september. Fyrstu þrjú kvöldin eru svokölluð opin kvöld þar sem öllum gefst kostur á að kynna sér starfið. Tólf spora vinna hentar öllum þeim sem í einlægni vilja dýpka sínar tilfinningar og öðlast betri líðan og meiri lífsfyllingu.

Minningarstund vegna fósturláta

Minningarstund vegna fósturláta verður haldin í Höfðakapellu á Akureyri fimmtudaginn 13. september kl. 16.30. Minningarstundin er hugsuð til að koma til móts við þau ótalmörgu sem upplifað hafa sorg vegna fósturláts. Minningarstundin er haldin í samvinnu Sjúkrahússins á Akureyri og Útfararþjónustu kirkjugarða Akureyrar.