10.11.2012
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði kirkjuþing við setningu þess í morgun. Sagði Ögmundur sögu kirkju og þjóðar ekki auðveldlega slitna í sundur. Kirkjan, óttalaus, staðföst og sterk, væri sú kirkja sem þjóðin hefði ákveðið að ætti að vera með okkur um ókomna framtíð. Kirkjan væri eign þjóðarinnar, þjóðin yrði að umbera hana sem og kirkjan þjóðina, líkt og veðurfræðingar innanríkisráðherra! Við sviptivinda í þjóðmálum væri ekki leiðin að höggva á rótina heldur hlúa að henni.
09.11.2012
Sunnudagurinn 11. nóvember er helgaður kristniboðinu. Af því tilefni fáum við í Glerárkirkju góðan gest, Ragnar Gunnarsson frá SÍK kemur í heimsókn, prédikar í messu og segir sunnudagaskólabörnunum sögur af kristniboðsakrinum. Að venju hefst messan klukkan ellefu og ganga börnin inn í safnaðarsalinn til sunnudagaskóla eftir að hafa tekið þátt í upphafi messunnar. Það er sr. Guðmundur Guðmundsson sem leiðir helgihaldið, Kór Glerárkirkju syngur undir stjórn Valmars Väljaots organista.
09.11.2012
Kirkjuþing unga fólksins fór fram í Grensáskirkju í dag. Þingið sóttu fulltrúar unga fólksins úr söfnuðum þjóðkirkjunnar alls staðar af landinu, þeirra á meðal Guðrún Ösp Erlingsdóttir (mynd) sem tekur virkan þátt í æskulýðsstarfi Glerárkirkju. Þingið samþykkti meðal annars ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld að leiðrétta niðurskurð á sóknargjöldum og skorað á kirkjuna að standa vörð um æskulýðsstarf sem hafi orðið illa fyrir niðurskurðarhnífnum.
05.11.2012
Fermingarbörn Glerárkirkju ganga í hús þriðjudaginn 6. nóvember síðdegis og fram á kvöld til að safna fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Malaví, Úganda og Eþíópíu. Þetta er í 14. sinn sem söfnunin er haldin. Í fyrra söfnuðu fermingarbörn 8 milljónum króna. En samtals hafa þau í gegnum árin safnað um 75 milljónum króna til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar. Við í Glerárkirkju gleðjumst yfir því að vera ein af 65 sóknum á landinu sem taka þátt í þessu söfnunarverkefni og vonumst til þess að íbúar sóknarinnar taki vel á móti fermingarbörnunum eins og undanfarin ár. Nánari upplýsingar gefur Pétur Björgvin djákni í síma 864 8451.
01.11.2012
Næstkomandi þriðjudag 6. nóvember tekur Litli leikklúbburinn til starfa. Hann er fyrir alla krakka í 2. bekk og upp úr. Hugmyndin er að skemmta sér við það að undirbúa jólaleikrit. Fundir verða á þriðjudögum kl. 16:30 - 17:30 á neðri hæð Glerárkirkju. Umsjón með starfinu hafa þær Guðrún Ösp í síma 845 9867 og Kristín Helga í síma 698 4415.
01.11.2012
Næstkomandi miðvikudag 7. nóvember fær Glerárkirkja í heimsókn einn fremsta fræðimann okkar á sviði Gamla testamentisins á fræðslukvöld. Dr. Gunnlaugur A. Jónsson mun flytja erindi um Trúfélagið, sýn og skipulag. Hann mun leggja áherslu á fræðasvið sitt og spurningarnar sem hann glímir við eru: Eykur fjölbreytileiki guðsþjónustuformsins skilning á trú? Dæmi m.a. tekin af helgihaldi hinna fornu Hebrea/Ísraelíta eins og það
birtist í Davíðssálmum. Hvað er það sem aðgreinir gyðingdóm og kristni og hvað sameinar? Fræðslukvöldin hefjast kl. 20, boðið er upp á veitingar í hléi en eftir þær eru umræður um efni kvöldsins.
30.10.2012
Vegna veðurs komst frú Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup á Hólum ekki en erindi hennar var flutt og tekið til umræðu á fræðslukvöldi í Glerárkirkju 31. október kl. 20. Efni kvöldsins var Sjálfsskilningur, siðfræði og sjálfsmynd. Nú er hægt að lesa erindi frú Solveigar Láru á vefsíðu hennar, slóðin er hér á síðunni...
26.10.2012
Miðvikudagskvöldið 24. október flutti Þórgnýr Dýrfjörð heimspekingur erindi í Glerárkirkju um guðshugmyndir. Erindið er hluti af umræðukvöldaröð sem stendur yfir þessar vikurnar undir yfirskriftinni "Hvað er kristin trú?" og byggja umræðurnar á samnefndri bók eftir Halvor Moxnes, norskan guðfræðiprófessor sem horfir mjög gagnrýnum augum á margt sem tengist kristni og biblíuskilningi. Dagskráin hefst kl. 20:00 á miðvikudagskvöldum. Vel fyrir níu er tekið kaffihlé og að því loknu taka við óformlegar umræður um skoðanir Moxnes Næsta miðvikudagskvöld flytur frú Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal erindi um Sjálfskilning, siðfræði og sjálfsmynd. Dagskrána má skoða hér.
24.10.2012
Samvera eldri borgara verður fimmtudaginn 25. október kl. 15. Gestur samverunnar verður Gunnar Jónsson frá Villingadal. Hann mun flytja fróðleik um mannlíf í Saurbæjarhreppi. Rúta fer frá Lindasíðu kl. 14:45 og kemur við á Dvalarheimilinu Lögmannshlíð.
22.10.2012
Sigrún Magna Þórsteinsdóttir organisti í Akureyrarkirkju kemur og kynnir krílasálma á foreldramorgni í fyrramálið, þriðjudaginn 23. október. Foreldrar með ung börn eru velkomnir að eiga notalega samverustund með börnunum sínum. Morgunverðarhlaðborð á vægu verði í boði.