Fréttir

Afríkumatur í boði og fundur um vinasöfnuð í Afríku

Næstkomandi sunnudag kemur sr. Jakob Hjálmarsson í heimsókn á kristniboðsdaginn 10. nóvember. Hann verður með í kvöldguðsþjónustu. Hann hefur starfað á vegum Sambands íslenskra kristniboðsfélaga í Afríku að fræðslu presta og prédikara. Um það má lesa nánar hér á síðunni. Hann hefur stuðlað að tengslum við söfnuði í Kenía og íslenskra safnaða og verður það umfjöllunarefni á fundi á sunnudaginn kl. 19. Vonir standa til að kynning hans á verkefninu verði til að skapa lifandi tengsl milli Glerárkirkju og safnaðar úti í Kenía. Til að hafa reglulega skemmtilega umgjörð verður boðið upp á mat frá Afríku, Vodd og Grill-spjót, ágóðin mun renna til kristniboðsstarfsins, einnig verður tekið á móti frjálsum framlögum. Það þarf að skrá sig í matinn í síðasta lagi föstudaginn 8. nóvember í Glerárkirkju í síma 464 8800 eða hjá Guðmundi 897 3302 / gudmundur.gudmundsson@kirkjan.is. Maturinn verður á 2.000 kr. Kynningin hefst svo kl. 19.20 og verður einnig fjallað um það í kirkjunni um kvöldið.

Kvöldguðþjónusta í Glerárkirkju.

Kvöldguðþjónusta um kristniboð og vinasöfnuð verður í Glerárkirkju sunnudagskvöldið 10. nóvember kl: 20.00 Krossbandið leiðir söng. Sr, Jakob Hjálmarsson sýnir myndir frá Kenía og prédikar. Sr. Guðmundur Guðmundsson þjónar.

Messa í Glerárkirkju.

Sunnudaginn 10. nóvember kl: 11.00 verður messa í Glerárkirkju. Kór Kirkjunnar leiðir almennan söng. Hann mun syngja lög frá ýmsum heimshornum til að minna á að kirkjan er alþjóðleg og á að ná til allra þjóða. Sr. Guðmundur Guðmundsson þjónar og kynnir kristniboðsstarf. Sunnudagsskóli kl: 11.00 Sameiginlegt upphaf í messu. Allir velkomnir.

Umræðukvöld um kristna trú byrja 6. nóv. kl. 20

Í nóvember verða umræðukvöld um kristna trú sem nefnd eru "Leiðsögn á lífsins vegi", næstu þrjú miðvikudagskvöld kl. 20:00-21:30. Með þessum kvöldum viljum við skapa vettvang til umræðu um nokkur grundvallaratriði trúarinnar. Samverurnar byggjast á inngangserindi, umræðum og upplifun og þátttöku í helgihaldi. Vekjum við sérstaklega athygli foreldra fermingarbarna á þessum kvöldum sem tækifæri til að ræða þau atriði sem börn þeirra eru að tileinka sér í fermingarfræðslunni. Þetta er fullorðinsfræðsla þar sem tækifæri gefst til skoðanaskipta og gagnrýninnar umræðu.

Messa í Glerárkirkju.

Messa verður í Glerárkirkju sunnudaginn 3. nóvember kl: 11.00 Prestur: er sr. Gunnlaugur Garðarsson Organisti: Valmar Väljaots. Kór Glerárkirkju leiðir söng.

Diskó eða dýrðarsöngur á fræðslukvöldi 30. okt.

Síðasta kvöldið í dagskránni Syngjandi kirkja verður á miðvikudaginn 30. október kl. 20-22. Yfirskrift kvöldsins er Diskó eða dýrðasöngur. Áherslan verður á nýjum sálmasöng sem litið hefur dagsins ljós hin síðari ár. Kór Glerárkirkju flytur nokkur dæmi og Valmar Väljaots, organisti, kynnir nokkrar nýjar stefnur í tónlistinni sem notuð er. Hildur Eir Bolladóttir og Sunna Dóra Möller, prestar í Akureyrarkirkju, ræða um nýrri sálmakveðskap.

Samstarf um jólaaðstoð

25. október var undirritaður samstarfssamningur um jólaaðstoð á Eyjafjarðarsvæðinu í Glerárkirkju. Fjögur samtök munu vinna saman í ár að þessu verkefni. Þau eru: Hjálpræðisherinn á Akureyri, Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og Rauði Krossinn við Eyjafjörð.

27. október. Fjölskylduguðsþjónusta kl. 11 – kvöldguðsþjónusta kl. 20

Í fjölskylduguðsþjónustunni syngur Barna- og æskulýðskór Glerárkirkju undir stjórn Dagnýjar Höllu Björnsdóttur. Sýnt verður brúðuleikhús og horft á skjámyndir um söguna um Mörtu og Mikill söngur. Sr. Guðmundur Guðmundsson og Ragnheiður Sverrisdóttir annast guðsþjónustuna. Í kvöldguðsþjónustunni spilar krossbandið og sr. Guðmundur prédikar á myndrænan hátt.

Syngjandi kirkja

Miðvikudaginn 23. október kl. 20 heldur dagskráin Syngjandi kirkja áfram. Yfirskriftin er Lofsöngur kóranna. Sigrún Magna Þórsteinsdóttir organisti og kór Möðruvallaklaustursprestakalls annast flutning sálma sem sr. Guðmundur Guðmundsson fjallar um. Erindi hans heitir: Kóraltímabilið og sálmabókin 1886.

Glerárkirkja er bleik!

Glerárkirkja hefur verið lýst með bleikum ljósum allan októbermánuð. Á þann hátt vill kirkjan vekja athygli á baráttu gegn krabbameinum hjá konum og vera með í fjáröflunar- og árvekniátaki Krabbameinsfélagsins Bleiku slaufunni.