20.10.2012
Sr. Guðmundur Guðmundsson er prestur í messu safnaðarins í Glerárkirkju sunnudaginn 21. október kl. 11:00. Kór Glerárkirkju syngur undir stjórn Valmars Väljaots. Barnastarfið verður á sínum stað í safnaðarsalnum. Þar verður Hermann á gítarnum og Dagný og Rakel segja sögur, sýna brúðuleikhús og annað sem tilheyrir skemmtilegum sunnudagaskóla. Um kvöldið er svo kvöldguðsþjónusta sem sr. Guðmundur leiðir ásamt Krossbandinu sem sér um söng og tónlist.
19.10.2012
Miðvikudagskvöldið 17. október hélt sr. María Ágústsdóttir erindi á fræðslukvöldi prófastsdæmisins í Glerárkirkju sem fjallaði um biblíutúlkun og byggði erindið að stórum hluta á öðrum kafla úr bók Halvors Moxnes "Hvað er kristin trú?" 27 manns sátu þennan fræðslufund sem var annar fundurinn í átta umræðukvöldaröð. Næst mun Þórgnýr Dýrfjörð heimspekingur fjalla um Guðsmyndir og mannskilning og fer fyrirlesturinn hans fram miðvikudagskvöldið 24. október. Erindin eru birt jafnóðum á glerarkirkja.is og er nú hægt að horfa á erindi Maríu hér á vefnum.
28.10.2012
Næstkomandi sunnudag þann 4. nóvember verður boðið upp á fund fyrir foreldra fermingarbarna fyrir þá sem komust ekki 28. október sl. Fundurinn verður að lokinni kvöldmessu sem hefst kl. 20.
18.10.2012
Prédikun sr. Örnu Ýrrar Sigurðardóttur frá síðasta sunnudegi er aðgengileg á trú.is. Þar segir sr. Arna meðal annars: ,,Jesús segir: Stattu upp. Og í því felst fyrirgefning. Fyrirgefning þeirra synda sem lama okkur, sem gera okkur magnvana og ófær um að standa með sjálfum okkur. Jesús tekur af okkur byrðarnar. Alveg eins og stendur fyrir ofan kirkjudyrnar , og við minnum ykkur fermingarbörnin á: Jesús segir, komið til mín allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita yður hvíld."
18.10.2012
Hún var í alla staði ánægjuleg ferðin sem prestar og djákni Glerárkirkju fóru í dag í Skagafjörð með fermingarbörnum úr Síðuskóla. Lagt var af stað í mikilli hálku frá Akureyri en um leið og komið var út úr bænum var varla hægt að tala um hálku og þjóðvegur eitt auður mesta leiðina. Hér á vef kirkjunnar eru birtar nokkrar myndir frá ferðinni.
18.10.2012
Marína Ósk Þórólfsdóttir kórstjóri Barnakórs Glerárkirkju og Æskulýðskórs Glerárkirkju heldur á Hólavatn um helgina ásamt kórunum sínum. Börnum úr barnakórnum er boðið í dagsferð á laugardeginum, brottför frá Glerárkirkju kl. 10:30 og komið heim kl. 18:00. Krakkarnir úr æskulýðskórnum hins vegar fá að gista, brottför frá Glerárkirkju á laugardeginum kl. 16:30 (mæting 16:15) og komið til baka klukkan hálf eitt á sunnudeginum. Nánari upplýsingar gefa Marína ( 847-7910) og Rósa Ingibjörg Tómasdóttir aðstoðarkona kórstjóra ( 844 1422). Ferðirnar kosta ekkert.
17.10.2012
Boðað er til umræðufundar í Glerárkirkju föstudaginn 19. október kl. 17:00 til 18:30. Frummælandi verður Ágúst Þór Árnason, forseti Lagadeildar Háskólans á Akureyri. Efni fundarins verður "Kirkjan og stjórnarskráin" Sr. Jón Ármann Gíslason prófastur stýrir fundi. Allir velkomnir.
17.10.2012
Komin er á heimasíðu Fjölskylduþjónustu kirkjunnar grein undir heitinu: ,,Til skiptis hjá foreldrum – líðan og aðlögun unglinga" eftir fjölskyldugerðum eftir Benedikt Jóhannsson, sálfræðing Fjölskylduþjónustu kirkjunnar. Greinin lýsir niðurstöðum úr samvinnuverkefni milli Fjölskylduþjónustu kirkjunnar og félagsþjónustunnar í tveimur hverfum Reykjavíkurborgar.
17.10.2012
Sr. Þorbjörn Hlynur Árnason ritar grein í Morgunblaðið í dag sem nefnist ,,Af hverju jáyrði við þjóðkirkju?" þar sem hann bendir á að ekki er verið að kjósa um samband ríkis og kirkju, heldur miklu fremur um samband kristni og þjóðar, þ.e. hvaða umgjörð við viljum hafa um hið trúarlega svið samfélagsins. Þá áréttar hann í greininni að þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag en hvorki ríkiskirkja né stofnun. Grein hans er birt í heild sinni hér á glerarkirkja.is.
17.10.2012
Þriðja tölublað Bjarma, tímarits um kristna trú er nú komið út. Meðal efnis er grein eftir Martin Saunders þar sem hann veltir fyrir sér hvaða áhrif bókin "Fimmtíu gráir skuggar" hafi á mat samfélagsins á kynlífi. Þá er að finna í blaðinu kynningu á starfi samtaka sem nota Biblíuna til að leiðbeina fólki í fjárhagsörðugleikum sem og ítarlega grein um trúarlegt baksvið 12 sporanna ásamt fjölda annarra góðra greina. Að sjálfsögðu er hið sívinsæla Bjarmabros líka til staðar.