Fréttir

Kökubasar, tombóla, markaður, kaffisala og lifandi tónlist

Það verður sannkölluð kaffihúsa- og markaðsstemning í safnaðarsal Glerárkirkju í dag frá 14.00 til 17:00 en þá stendur kvenfélagið Baldursbrá fyrir tombólu og kökubasar. Fólk er hvatt til að mæta og styrkja fjáröflunar kvenfélagsins, njóta þeirrar lifandi tónlistar sem í boði verður og fá sér kaffi, heitt súkkulaði og eplaköku í kaffihúsahorninu. Þá verða kvenfélagskonur með ýmsan varning til sölu. Athugið enginn posi á staðnum.

Alþjóðadagur fórnarlamba umferðarslysa í dag

Í tilefni Alþjóðadegi fórnarlamba umferðarslysa ætlar Rauði krossinn á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri og Félag slökkviliðsmanna á Akureyri að standa fyrir stuttri samveru í dag sunnudag kl 16.30 við þyrlupallinn hjá FSA. Tilgangurinn er að sýna samhug, minnast fórnarlamba umferðarslysa, kveikja kertaljós og hlusta á stutta hugvekju.

Samvera eldri borgara

Gestur samverunnar verður Þórarinn Hannesson, forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands og mun hann fjalla um málefni ljóðsins. Rúta fer frá Lindasíðu kl. 14:45 og kemur við á Dvalarheimil­inu Lögmannshlíð á leið til kirkjunnar. Að venju verður helgistund og kaffiveitingar.

Erindi dr. Gunnlaugs A. Jónssonar komið á vefinn

Á fræðslukvöldi 7. nóvember sl. flutti dr. Gunnlaugur A. Jónsson prófessor í Gamla testamentisfræðum erindi um Trúfélagið í ljósi Davíðssálma, afar áhugavert þar sem hann skýrði það sem er sameiginlegt og greinir á milli Gyðingdóms og kristni.

Jón Bjarnason um kirkjustarfið

„Komið er að þolmörkum í kirkjustarfi víða um land vegna niðurskurðar fjárveitinga. Staða, hlutverk og ábyrgð kirkjunnar og fjölþætt starf á hennar vegum er með þeim hætti að við hljótum að leggja við hlustir og bregðast við þegar hún kallar á hjálp, ekki sjálfrar sín vegna heldur fyrir okkur, mig og þig." segir Jón Bjarnason í grein um kirkjustarfið í Morgunblaðinu í dag.

Umræða á Alþingi um fjármál sóknarnefnda

Vakin er athygli á því að í opnum fyrirspurnartíma á Alþingi, þriðjudaginn 13. nóvember kl. 13:30 mun innanríkisráðherra, Ögmundur Jónsson, bregðast við (kl. 14:00) fyrirspurn frá Birgi Ármannssyni um stöðu og fjármál sóknarnefnda í ljósi niðurskurðar hin síðustu ár.

Fræðslukvöld um kristna trú og kynin með Huldu Hrönn M. Helgadóttur

Næstkomandi miðvikudag 14. nóvember verður sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir fyrirlesara á fræðslukvöldi kl. 20. Hún mun fjalla um Kynin: Kristin trú og kyn. Spurningarnar sem hún mun fást við eru: Hver er boðskapur kristni inn í umræðuna um kyn í dag? Hafði eða hefur meinlætalífið tilgang og innihald? Hvaða hlutverki gegnir hjónabandið í kristinni trú? Fræðslukvöldin hefjast kl. 20, boðið er upp á veitingar í hléi en eftir þær eru umræður um efni kvöldsins.

Hugmyndir um sameiningar prófastsdæma og prestakalla

Skipulagsmál voru fyrirferðarmikil á kirkjuþingi í gær sunnudag þegar tekin voru til fyrri umræðu mál er varða sameiningar prófastsdæma og sameiningar prestakalla, bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Samantekt þingmála er að finna á vef kirkjuþings. Þar er einnig að finna upptökur af umræðu um þau mál sem farið hafa í fyrstu umræðu.

Saga kirkju og þjóðar ekki auðveldlega slitin í sundur

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði kirkjuþing við setningu þess í morgun. Sagði Ögmundur sögu kirkju og þjóðar ekki auðveldlega slitna í sundur. Kirkjan, óttalaus, staðföst og sterk, væri sú kirkja sem þjóðin hefði ákveðið að ætti að vera með okkur um ókomna framtíð. Kirkjan væri eign þjóðarinnar, þjóðin yrði að umbera hana sem og kirkjan þjóðina, líkt og veðurfræðingar innanríkisráðherra! Við sviptivinda í þjóðmálum væri ekki leiðin að höggva á rótina heldur hlúa að henni.

Kristniboðsdagurinn - Helgihald í Glerárkirkju 11. nóvember

Sunnudagurinn 11. nóvember er helgaður kristniboðinu. Af því tilefni fáum við í Glerárkirkju góðan gest, Ragnar Gunnarsson frá SÍK kemur í heimsókn, prédikar í messu og segir sunnudagaskólabörnunum sögur af kristniboðsakrinum. Að venju hefst messan klukkan ellefu og ganga börnin inn í safnaðarsalinn til sunnudagaskóla eftir að hafa tekið þátt í upphafi messunnar. Það er sr. Guðmundur Guðmundsson sem leiðir helgihaldið, Kór Glerárkirkju syngur undir stjórn Valmars Väljaots organista.