18.01.2013
Á sunnudaginn er messa kl. 11. Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir þjónar, Kór Glerárkirkju leiðir söng undir stjórn Valmars Väljaots. Barnastarfið hefst aftur og er upphaf sameiginlegt í messu. Í prédikuninni verður fjallað um það að vera með höfuðið í skýjunum og fæturna á jörðinni. Allir velkomnir.
17.01.2013
UD-Glerá, unglingastarf Glerárkirkju og KFUM og KFUK fer fram í sal KFUM og KFUK í Sunnuhlíð á fimmtudagskvöldum. Húsið opnað kl. 19:30 og dagskráin hefst kl. 20:00. Á dagskrá vorsins er að finna alls konar uppákomur og skemmtun þar sem ferð á landsmót KFUM og KFUK í Vatnaskógi ber hæst. Það eru allir unglingar úr áttunda til tíunda bekk velkomnir í unglingastarfið, hvert fimmtudagskvöld, annað hvert fimmtudagskvöld, þriðja hvert, fjórða hvert ... bara eins og hverjum og einum hentar, enda er dagskráin öllum opin og það besta: Starfið á fimmtudagskvöldum kostar ekki krónu!
17.01.2013
Krakkar! Lena, Linda, Ragnheiður, Dagný, Svava og Kolbrá hlakka til að hitta ykkur. Brúðuleikhúsið verður á sínum stað, mikill söngur og fjölbreytt dagskrá. Allir fá mynd og stimpil í sunnudagaskólabókina í hvert skipti sem mætt er. Sameiginlegt upphaf í messu safnaðarins áður en gengið er yfir í safnaðarsalinn.
15.01.2013
Magnús Aðalbjörnsson er gestur samverunnar og fjallar í máli og myndum um lífið í miðbæ Akureyrar um miðja síðustu öld. Allir velkomnir.
14.01.2013
Í prédikun sl. sunnudagskvöld segir sr. Arna m.a.: ,, Börn eru líka fólk. Við eigum m.a.s. að taka börnin okkur til fyrirmyndar. Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma... Sakleysið, varnarleysið, traustið, þetta eru gildi Guðsríkisins. Þetta er það sem við eigum að meta mest í lífinu, og gæta sem best að. Við eigum að hlúa að varnarleysinu, við eigum að verja sakleysið og við eigum að treysta. Guði...
En getum við treyst hvert öðru ? "
13.01.2013
Fermingarfræðslan í Glerárkirkju á vorönn hefst með þemaviku fermingarbarna þriðjudaginn 22. janúar og mæta ungmennin þá vikuna í fermingarfræðslu skv. stundaskrá. Í heimsókn hjá okkur verður 18 manna hópur frá Bandaríkjunum og Kanada. Fjölbreytt dagskrá vikunnar er kynnt hér á glerarkirkja.is. Boðið er upp á fjölbreytt hópastarf til viðbótar við fermingarfræðslutímana og eru foreldrar hvattir til að kynna sér dagskrána og hvetja börnin til þátttöku. Þemavikan endar með virkri þátttöku fermingarbarna í messu safnaðarsins sunnudaginn 27. janúar kl. 11:00. Umsjón með þemavikunni hefur djákni Glerárkirkju, Pétur Björgvin og gefur hann nánari upplýsingar í síma 864 8451.
11.01.2013
Sunnudaginn 13. janúar 2012 er kvöldmessa í Glerárkirkju kl. 20:00. Þar sér Krossbandið um tónlistina og meðal annars munu þau Snorri, Ragga og Stefán flytja nokkur lög eftir Bergþóru Árnadóttur. Prestur er sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir. Allir velkomnir.
11.01.2013
Í sumar mun fríður hópur ungmenna úr UD-Glerá sem er sameiginlegt unglingastarf KFUM og KFUK og Glerárkirkju taka þátt í Evrópuhátið KFUM og KFUK sem verður haldin í Prag í Tékklandi. Að sjálfsögðu eru krakkarnir dugleg við fjáröflun því að svona ferð kostar sitt. Þessa dagana ganga þau í hús og selja sand í fötum og hefur sumum þeirra bara gengið nokkuð vel, því að víða er hált. Við hvetjum fólk til að taka krökkunum vel.
09.01.2013
Framundan er þemavika fermingarbarna í Glerárkirkju. Til að gera vikuna sem skemmtilegasta hefur Glerárkirkja fengið til liðs við sig 18 manna hóp fólks milli tvítugs og þrítugs sem sækir biblíuskóla á vegum Youth with a Mission, en þau eru nú stödd í Íslandi í starfsþjálfun. Hópurinn mun dvelja á Akureyri frá mánudeginum 21. janúar til og með sunnudagsins 27. janúar. Enn vantar gistipláss fyrir 10 af 18, en leitað er eftir gestgjöfum sem geta boðið upp á rúm (má vera sófi á holi eða í stofu, jafnvel dýna á gólfi) og gefið viðkomandi morgunmat. Allar aðrar máltíðir verða sameiginlegar í kirkjunni fyrir hópinn. Nánari upplýsingar gefur Pétur Björgvin í síma 864 8451 eða á netfangið petur[hjá]glerarkirkja.is.
08.01.2013
Þessa dagana stendur yfir sýning á verkum handverkskonunnar og ljósmyndanemans Díönu Bryndísar í Glerárkirkju. Díana Bryndís, einnig þekkt sem Mamma Dreki, leggur stund á nám í ljósmyndun við New York Institute of Photography en er búsett í dag ásamt fjölskyldu sinni norðan ár á Akureyri. Sýning hennar var opnuð á afmælishátíð Glerárkirkju í desember og stendur sýningin fram í febrúar. Sýningin er opin alla virka daga frá 11:00 til 16:00 sem og þegar viðburðir eru í kirkjunni.