Fréttir

Forvitni sem lykill að fjölmenningu

Við sem störfum með ungu fólki verðum að spyrja okkur hvort verið geti að við séum á engan hátt undir það búin að búa einstaklinginn undir að takast á við hið framandi og óskiljanlega. Eða hvernig gengur okkur að samsama okkur fjölhyggjusamfélaginu? Lesa pistil á trú.is.

Hvenær er fermt 2013?

Um hver áramót setjum við hér í Glerárkirkju tilkynningu um dagsetningar ferminga næsta árs á síðuna. Bent er á að þær upplýsingar eru aðgengilegar undir liðnum fermingar hér til hægri (einnig hægt að smella hér).

Fyrirbænir í Glerárkirkju

Hádegissamvera verður að vanda í Glerárkirkju miðvikudaginn 9. maí kl. 12:00. Stundin hefst í kirkjunni með orgelleik, signingu og sálmasöng. Guðspjallstexti vikunnar er lesinn, farið með syndajátningu og kirkjugestum boðið að ganga til altaris. Að altarisgöngu lokinni tekur við fyrirbænastund. Koma má fyrirbænaefnum til presta kirkjunnar í síma 464 8800 á viðtalstíma (þriðjudag og miðvikudag kl. 11:00 til 12:00). Boðið er upp á léttan hádegisverð á vægu verði í safnaðarsal að fyrirbænum loknum.

Leiðarsteinar til farsælla og betra lífs

Glerárkirkja, í samstarfi við ráðgjafa- og sálgæslusetrið HEILD, stendur fyrir námskeiðinu LEIÐARSTEINAR TIL FARSÆLLA OG BETRA LÍFS, þriðjudagana 15. og 22. maí næstkomandi. Námskeiðið er þróað með aðferðafræði tólf sporanna að leiðarljósi - andlegu ferðalagi - með kenningum úr tilvistarfræðum (existentialism), sálfræði (HAM) og fl. Jafnframt eru kynntar aðferðir íhugunarfræðanna.

Þrjú í framboði til vígslubiskups á Hólum

Í frétt sem birtist fyrir stundu á kirkjan.is segir: Frambjóðendur til vígslubiskupsembættisins að Hólum eru orðnir þrír en í dag var tekið á móti framboðstilkynningu sr. Gunnlaugs Garðarssonar sóknarprests í Glerárprestakalli á Akureyri. Má nú gera ráð fyrir að allur póstur stimplaður á lokadegi umsóknarfrests, 30. apríl, hafi borist kjörstjórn og því muni frambjóðendum ekki fjölga frekar. Eru þeir þá þrír: Sr. Gunnlaugur Garðarsson, sr. Kristján Björnsson og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir. Sjá nánar í frétt á kirkjan.is.

Aðalsafnaðarfundur Lögmannshlíðarsóknar

Aðalsafnaðarfundur Lögmannshlíðarsóknarverður haldinn þann 13. maí nk. í Glerárkirkju að lokinni messu sem hefst kl 11.00. Boðið verður upp á súpu og brauð áður en fundur hefst. Dagskrá fundar: 1.     Skýrsla formanns 2.     Rekstrarreikningur ársins 2011 3.     Önnur mál Sóknarnefnd Lögmannshlíðarsóknar

Æskulýðsstarf kirkjunnar og menntun umsjónarfólks

Djáknarnir í Hallgrímskirkju og Glerárkirkju skrifa í dag um menntun þeirra sem sjá um barna- og unglingastarf í kirkjum landsins. Í pistli þeirra sem birtist á trú.is hvetja þau kirkjustjórnina í heild sinni til þess að bjóða upp á námskeið um allt land fyrir þau sem koma að barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Lesa pistil á trú.is.

Gangur í framkvæmdum á Hólavatni

Nýbyggingaframkvæmdir við sumarbúðir KFUM og KFUK að Hólavatni eru nú á lokasprettinum fyrir sumarið. Í ágúst 2008 var tekin skóflustunga að nýju 210 fermetra húsi og nú tæpum fjórum árum seinna er draumurinn að verða að veruleika og í sumar munu börnin við Hólavatn fá að njóta þess að dvelja í nýjum herbergjum og eldri svefnaðstöðu hefur verið breytt í tómstundarými með borðtennisborði, fótboltaspili og fönduraðstöðu. Sjá nánar á kfum.is.

Messa í Glerárkirkja

Sunnudagurinn 6. maí er fjórði sunnudagur eftir páska og ber hann nafnið Cantate sem þýðir söngur. Sr. Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur, mun leiða messu í Glerárkirkju kl. 11:00 þann dag og verður lofgjörðin og gleðin í fyrirrúmi í samræmi við þema og tilefni dagsins. Kór Glerárkirkju syngur undir stjórn Valmars Väljaots.

Vortónleikar Karlakórs Akureyrar-Geysis

Karlakór Akureyrar-Geysir heldur vortónleika sína í Glerárkirkju, laugardaginn 5. maí og hefjast þeir kl. 15:00. Þar verða sungin lög úr öllum áttum, hefðbundin íslensk karlakóralög og erlend lög í bland. Fjórir einsöngvarar koma fram á tónleikunum auk þess sem KAG-kvartettinn tekur lagið. Stjórnandi er Valmar Väljaots. Miðaverð er 2.000 kr. Miðar eru seldir við innganginn.