Fréttir

Jólastund á foreldramorgni í dag

Jólalög og jólastemmning verða ríkjandi í dag á foreldramorgni í Glerárkirkju frá 10:00 til 12:00. Þetta er síðasta samveran fyrir jól, en foreldrarmorgnar halda áfram á nýju ári. Fyrsta samvera 2012 verður fimmtudaginn 12. janúar.

Alþjóðleg jól í Rósenborg, 17. desember kl. 14:30 til 17:00

Við í Glerárkirkju hvetjum unga sem aldna til þess að fjölmenna á alþjóðlega jólahátíð sem verður haldin laugardaginn 17. desember frá 14:30 til 17:00 á efstu hæðinni í Rósenborg. Hægt verður að upplifa hvernig jólin hljóma, bragðast og hvaða hefðir tíðkast á öðrum stöðum í heiminum um jólahátíðina. Í boði verður andlitsmálning, börnin geta búið til jólaskraut og hjálpast að við að skreyta jólatréð. Skoða auglýsingu (PDF-skjal).

Neyð og óréttlæti kalla á aðgerðir

Óháð og sjálfstætt vinnur Hjálparstarf kirkjunnar í þágu þeirra sem líða fátækt og óréttlæti - utanlands og innan. Að hjálpa til sjálfshjálpar og tala máli fátækra og undirokaðra er alltaf verkefni dagsins. Að draga fram kjör þeirra sem eiga sér ekki málsvara og ýta á aðgerðir sem breyta lífsmöguleikum þeirra, er markmið okkar.

Helgihald í Glerárkirkju um jólin

Í Glerárkirkju verður að venju fjölbreytt helgihald um jólin. Á aðfangadag verður aftansöngur kl. 18:00. Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir þjónar og Kór Glerárkirkju syngur undir stjórn Valmars Väljaots. Miðnæturmessa verður kl. 23:00. Sr. Gunnlaugur Garðarsson þjónar ásamt Pétri Björgvin Þorsteinssyni, djákna. Á jóladag verður hátíðarguðsþjónusta kl. 14:00. Sr. Gunnlaugur Garðarsson þjónar og Kór Glerárkirkju syngur. Á annan dag jóla verður fjölskylduguðsþjónusta kl. 13:00. sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir og Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni leiða stundina, börn flytja helgileik og kór kirkjunnar leiðir söng. 

RÚV segir frá jólakortasýningu Glerárkirkju

Í fréttum RÚV er talið niður til jóla. Þegar 12 dagar voru til jóla sýndi RÚV frá jólakortasýningu í Glerárkirkju, en sýningin verður opin fram í janúar í kringum athafnir í kirkjunni. Horfa á frétt á RÚV.

Jólasamvera eldri borgara

Í ár verður jólasamvera eldri borgara föstudaginn 16. desember kl. 15:00. Níels Árni Lund, skrifstofustjóri verður gestur samverunnar. Hann er mikilvirkur gamanvísnasöngvari og hefur gefið út geisladisk með eigin textum við þekkt lög. Einnig hefur hann gefið út bókina Af heimaslóðum sem segir frá lífi fólksins á Melrakkasléttu auk þess sem hann vinnur að annarri bók um sama svæði. Níels Árni mun flytja jólahugvekju auk þess sem hann mun taka lagið og flytja skemmtilegan fróðleik.

Brautryðjandinn - viðtal við höfund bókarinnar

Nýverið tóku Skálholtsútgáfan og Glerárkirkja höndum saman og buðu upp á bókakaffi í Glerárkirkju þar sem Óskar Guðmundsson sagði frá nýútkominni bók um Þórhall Bjarnarson, biskup. Þeim sem komust ekki þetta kvöld er bent á viðtal sem Hilda Jana á N4 tók við Óskar og má skoða hér fyrir neðan.

Jólatónleikar 18. desember kl. 16.00

Jólatónleikar Kórs Glerárkirkju eru að þessu sinni í samvinnu við Kór eldri borgara á Akureyri - Í fínu formi. Stjórnandi beggja kóra er Valmar Väljaots. Hann sér líka um undirleik og fær til liðs við sig Marínu Ósk Þórólfsdóttur sem leika mun á þverflautu. Frítt er inn og allir hjartanlega velkomnir. Hugsast gæti að skemmtilegir og svolítið skrítnir gestir litu í heimsókn:o)

Fjórði sunnudagur í aðventu - fjölskylduguðsþjónusta kl. 11:00

Fjölskylduguðsþjónusta verður í Glerárkirkju fjórða sunnudag í aðventu - 18. desember 2011. Lifandi marimbatónlist frá 10:45. Guðsþjónustan hefst kl. 11:00.  * Suzukinemendur frá Tónlistarskólanum á Akureyri leika nokkur lög á fiðlurnar sínar. * Marimbasveitin Mandísa heldur uppi fjörinu undir stjórn Ástu Magnúsdóttur tónmenntakennara. * Leikþáttur um hann Pésa sem langar að verða jólasveinn. * Mikill almennur söngur undir stjórn Marínu Óskar Þórólfsdóttur. * Sr. Arna og Pétur djákni sjá um dagskrána ásamt barnastarfsfólki. * Sunnudagaskólabörnum boðið að koma upp og prufa að vera "kór". * Litið inn í jólaguðspjallið og "Heims um ból" á sínum stað. * Gengið í kringum jólatréð í safnaðarsal í lokin. * Askasleikir kemur í heimsókn. PDF-skjal til útprentunar.

Gefðu gjöf frá hjartanu

N4, Icelandair, Vodafone og Bílaleiga Akureyrar eru bakhjarlar söfnunar til styrktar Hjálparstarfi kirkjunnar. Söfnunin fer fram í beinni útsendingu á N4 frá Menningarhúsinu Hofi, föstudagskvöldið 16. desember kl. 20:00. Símalínurnar eru hins vegar opnar nú þegar og um að gera að hringja og styrkja gott málefni: 9071901 - 1000 kr. 9071903 - 3000 kr. 9071905 - 5000 kr. Allur ágóði rennur til Hjálparstarfs kirkjunnar á Norðurlandi. Sjá nánar á help.is. Tryggið ykkur miða á www.midi.is eða á www.menningarhus.is.