Fréttir

Þjóðkirkja við tímamót

Í nýjasta hefti Kirkjuritsins (78. árg. 1. h. 2012, bls. 10–16) birti Geir Waage grein er hann nefnir „Um Þjóðkirkjuna við tímamót“. Þeirri grein svarar dr. Hjalti Hugason með pistli á trú.is sem hann nefnir: "Þjóðkirkja við tímamót". Þar segir Hjalti meðal annars: "Raunar vekur grein Geirs upp spurninguna hvort lúthersk kirkja sé fremur kirkja presta eða safnaða. Hann vill sýnilega standa vörð um það sem kallað hefur verið „prestakirkja“."

60 ungmenni í mannréttindafræðslu

Þessa dagana stendur Akureyrarkirkja fyrir ungmennaskiptaverkefni með stuðningi frá Evrópu Unga Fólksins, styrktaráætlun Evrópusambandsins. Sunnudagsmorguninn 22. júlí kom þessi 60 ungmenna hópur í Glerárkirkju til að taka þátt í mannréttindafræðsluverkefni byggðu á verkefni úr Kompás - Handbók Evrópuráðsins í mannréttindafræðslu með ungu fólki.

Gönguguðsþjónusta kl. 20:00

Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir leiðir létta gönguguðsþjónustu sunnudagskvöldið 22. júlí næstkomandi. Lagt er af stað frá Glerárkirkju kl. 20:00 og endar gangan þar líka. Létta ganga við allra hæfi. Allir velkomnir.

Sumarstarf fyrir unglinga

Glerárkirkja stendur fyrir fjölbreyttu sumarstarfi fyrir unglinga. Þeim sem fædd eru 1999 er boðið í ferðir á Hólavatn í ágúst, en eldri unglingum (1998 og eldri) er boðið að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá sem hefst mánudaginn 23. júlí. Dagskráin er í umsjón Péturs Björgvins djákna og gefur hann nánari upplýsingar í síma 864 8451. Skráning fer fram á netfangið glerarkirkja@glerarkirkja.is

Um Þorláksmessu að sumri

Þorláksmessa að sumri er 20. júlí í minningu þess að þann dag árið 1198 voru bein heilags Þorláks Skálholtsbiskups grafin upp og lögð í skrín. Dánardægur hans er eins og kunnugt er 23. desember og þá er Þorláksmessa að vetri og margir halda upp á hana með skötuveislu. Á sumarmessunni er aftur á móti sungið úr Saltaranum bæði úti og inni. Saltari þýðir sungin lofgjörð og er þetta heiti notað yfir Davíðssálmana sem er að finna sem sérstaka bók í Gamla testamentinu.

Glerárprestakall stofnað

Árið 1981 varð Glerárprestakall til. Þar með hófst nýr kafli í sögu þjónustu kirkjunnar við íbúa norðan Glerár á Akureyri. Það ár fóru fram prestskosningar í byrjun desember og voru 2.392 á kjörskrá, þ.e. 18 ára og eldri. Lausleg talning í íbúaskrá frá því ári gefur til kynna að innan við 50 manns (16 ára og eldri) hafi á þessum tíma tilheyrt öðru trúfélagi en þjóðkirkjunni á því svæði sem nú telst póstnúmer 603. Sr. Pálmi Matthíasson var kjörinn sóknarprestur.

Æskulýðsfélagið Glerbrot: Sumardagskrá

Æskulýðsfélagið Glerbrot sem hefur verið starfandi í Glerárhverfi frá haustinu 1982 stendur fyrir sumardagskrá í næstu viku. Hún er opin krökkum sem fædd eru 1996 til 1998. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá innan bæjarmarkanna en endað á tjaldútilegu. Það eru öllum á þessum aldri velkomið að taka þátt og verður kostnaði haldið í lágmarki. Nánari upplýsingar gefur Pétur Björgvin djákni í síma 864 8451.

Um kirkjuskipan á Íslandi

Prófessor Hjalti Hugason ritar pistil í dag á trú.is þar sem hann spyr hvort þörf sé á nýrri kirkjuskipan. Hann segir meðal annars: "Vera má að nú standi kirkjan frammi fyrir því að ný markmið verði lögð til grundvallar við þróun kirkjuskipanarinnar."

Hamingjuóskir frá Lúterska heimssambandinu til biskups Íslands

Á vef Lúterska heimssambandsins kemur fram að sr. Martin Junge, framkvæmdastjóri Lúterska heimssambandsins óskar íslensku kirkjunni til hamingju með vígslu sr. Agnesar M. Sigurðardóttur til biskups Íslands. Þar minnir hann á að árið 2007 samþykkti sambandið ályktun um hlutverk kirkjunnar í uppbyggingar- og sáttarferli samfélagsins, meðal annars í löndum sem verði fyrir efnahagslegum áföllum.

Listin, kirkjan og trúin

Í desember 2002 var opnuð sýningin Sigur lífsins eftir Leif Breiðfjörð í Glerárkirkju á Akureyri. Af því tilefni birtist grein í Morgunblaðinu (4. janúar 2003, bls. 8-9 í Lesbók) eftir dr. Pétur Pétursson þar sem hann fjallaði um nýtt glerverk Leifs í kirkjunni og samspil listar, kirkju og trúar. Greinin hefur nú verið endurbirt í heild sinni hér á vef Glerárkirkju.