Fréttir

Norska kirkjan fjölgar djáknastöðum

Kirkjuþing norsku kirkjunnar samþykkti í apríl 2011 að stórfjölga djáknastöðum. Stefnt er að því að árið 2015 verði að minnsta kosti einn djákni starfandi í hverju prófastsdæmi. Ekki er gert ráð fyrir því að sóknargjöldin standi ein undir þessari breytingu, heldur á að nota aðra fjármuni norsku kirkjunnar til þess að gera þessa breytingu að veruleika. Til lengri tíma er stefnt að því að hver sókn hafi sinn djákna. Á Íslandi er staðan önnur. Starfandi djáknar á landinu eru samtals 18 og dreifast þeir á 4 prófastsdæmi af 9 og þar af tæplega helmingur í safnaðarstarfi, hinir á stofnunum. Glerárkirkja er ein fárra kirkna með djákna í 100% starfshlutfalli.

Skráning í haustferð verðandi fermingarbarna hafin

Þeim sem fæddir eru 1999 og búa í sókninni barst nýverið boðsbréf frá æskulýðsstarfi Glerárkirkju þar sem sagt er frá ferð á Hólavatn um miðjan ágústmánuð fyrir verðandi fermingarbörn og aðra áhugasama einstaklinga úr 1999-árganginum. Ferðin er ekki formlegur hluti af fermingarfræðslunni en öllum úr árganginum er hjartanlega velkomið að koma með í ferðina, óháð því hvort þau séu að hugsa um að fermast eða ekki. Skráning er hafin á netfangið glerarkirkja@glerarkirkja.is.

Þjóðaratkvæðagreiðsla og þjóðkirkjan

Drög að nýrri stjórnarskrá og ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla var til umræðu á kirkjuráðsfundi þann 20. júní. Kirkjuráð samþykkti ályktun þar sem minnt er á hlutverk opinnar og rúmgóðrar þjóðkirkju sem stofnunar í samfélaginu og nauðsyn þess að sátt sé um hana sem aðrar grundvallarstofnanir menningar og samfélags.

Biskupsvígsla

Næstkomandi sunnudag, 24. júní, vígir Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur. Viðstaddir verða biskupar frá öllum Norðurlöndunum auk fjögurra biskupa frá Bretlandseyjum. Athöfnin sem fer fram í Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti í Reykjavík hefst kl. 14:00 og er öllum opin.

Solveig Lára sóknarprestur á Möðruvöllum kjörin vígslubiskup

Í dag voru talin atkvæði í síðari umferð kosningar til embættis vígslubiskups á Hólum. Atkvæði féllu þannig að sr. Kristján Björnsson fékk 70 atkvæði og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir fékk 96 atkvæði.

Foreldramorgnar á sínum stað hvern fimmtudag

Minnum á að foreldramorgnar eru á sínum stað í sumar: Alla fimmtudagsmorgna frá 10:00 til 12:00 í safnaðarsalnum. Heitt á könnunni.

Skiptir sjálfbær þróun máli?

Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun verður haldin í Rio de Janeiro í Brasilíu á sama stað og Jarðarfundurinn fyrir tuttugu árum og því hefur ráðstefnan fengið nafnið Ríó + 20. Ráðstefnan hefst á morgun, 20. júní. Til hliðar við hana sameinast fjöldi félagasamtaka um "The people summit", þar á meðal þróunarhjálp evangelísku kirkjunnar í Þýskalandi (EED).

Til hamingju með kvenréttindadaginn

Við í Glerárkirkju óskum þjóðinni allri til hamingju með kvenréttindadaginn og hvetjum fólk til að mæta í árlega kvennasögugöngu Jafnréttisstofu, Minjasafnsins á Akureyri, Zontakvenna og Akureyrarbæjar kl. 16:30.

Kirkjan auki þjónustu við þau sem eru á jaðrinum í samfélaginu

Á ráðstefnu um þjónustu kirkjunnar - díakoníuna - sem haldin var nýverið í Colombo, Sri Lanka, var samþykkt ályktun þar sem kirkjur um allan heim eru hvattar til þess að taka sér stöðu við hlið þeirra sem eru jaðarsett í samfélaginu. Barátta fólksins fyrir jafnrétti og réttlæti sé barátta sem kirkjan eigi að styðja.

Séra frú Agnes

Ríkissjónvarpið birti áhugaverðan þátt um sr. Agnesi M. Sigurðardóttur verðandi biskup í gærkvöldi. VÞátturinn gefur tón sem ætla má að sé gott upphaf að vegferð hennar sem biskup. Sr. Agnes birtist fólki sem heilsteypt manneskja, sönn í því sem hún tekur sér fyrir og ekki eru meðmæli heimafólks af verri endanum.